Bæjarstjórn Hornafjarðar vill að björgunarþyrla Landhelgisgæslunnar verði staðsett á Hornafirði. Bæjarstjórnin segir að Hornafjarðarflugvöllur sé mikilvægur hlekkur í björgunar- og öryggisþjónustu í landinu. Lendingarskilyrði séu góð og flugvöllurinn hafi gegnt mikilvægu hlutverki í björgunaraðgerðum bæði til lands og sjávar á Suður- og Austurlandi.
Í tilkynningu frá Hornafjarðarbæ segir að vegna fjarlægðar milli Hafnar og Höfuðborgarsvæðisins séu veður oft ólík á þessum tveim stöðum. Þyrlur hafi takmarkað flugþol og fljúgi ekki yfir fjalllendi í slæmum veðrum og því myndi þyrla staðsett á Hornafirði veita sjófarendum við Suðurströndina og á sunnanverðum Austfjörðum aukið öryggi.

