Innlent

Tólf tíma tók að flytja húsið

Um tólf tíma tók að flytja tæplega hundrað ára gamalt hús frá Hverfisgötu yfir á Bergastaðastræti í Reykjavík í nótt. Eigandi verktakafyrirtækis sem sá um flutninginn segir þrengsli í miðbænum hafa valdið töfunum.



SR verktakar sáu um að flytja húsið sem er um þrjú hundruð fermetrar að stærð. Hátt í fimmtán fluttu húsið á þungaflutningabíl og var það komið af stað klukkan ellefu eftir nokkurra tíma undirbúning. Það var flutt upp Klapparstíg, inn Týsgötu og niður Spítalastíg.

Flutningurinn gekk afar hægt vegna gatnaþrengsla og á leið upp Klapparstíg var stoppað þrisvar sinnum. Fyrst við Laugveg 22 í tvo tíma ,síðan við veitingastaðinn Le Rendez vous á Klapparstíg í rúma þrjá tíma og á mótum Klapparstígs og Grettisgötu í rúma tvo tíma. Tvö hús skemmdust lítillega við Klapparstíg þegar húsið rakst í.



Þegar það var komið að hótel Óðinsvéum var gatan svo kúpt að húsið sveiflaðist til og frá þannig að annar bill var kallaður til. Klukkan hálfníu í morgun var það komið á áfangastað á Bergstaðastræti. Nærliggjandi götur verða lokaðar á meðan, að sögn lögreglunnar.



Sigurjón Halldórsson eigandi SR verktaka segir göturnar hafa verið það þröngar að tvísýnt hafi verið í fyrstu að koma húsinu þessa leið. Um enga aðra leið hafi verið að ræða.

Húsið verður sett á grunninn síðdegis í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×