Innlent

Stóra Lúkasarmálið týnt í kerfinu

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Fjaðrafokinu vegna Lúkasar virðist seint ætla að linna.
Fjaðrafokinu vegna Lúkasar virðist seint ætla að linna. Mynd/ Klara Sólrún Hjartardóttir
Öll gögn í Lúkasarmálinu eru týnd að því er virðist. Hvorki lögreglan á Akureyri né lögreglan á höfuðborgarsvæðinu kannast við að málið sé á þeirra borðum. Erlendur Þór Gunnarsson, lögfræðingur Helga Rafns Brynjarssonar, sagði í samtali við Vísi í dag að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefði rannsakað málið í sumar. Síðan hefði verið tekin sú ákvörðun að fela það lögreglunni á Akureyri.

Arnþrúður Þórarinsdóttir, lögfræðingur hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu staðfestir þetta. "Málið var framsent héðan til lögreglustjórans á Akureyri þann 2. ágúst síðastliðinn," segir hún í svari sínu til Vísis. Gunnar Jóhannes Jóhannsson, hjá lögreglunni á Akureyri, segir hins vegar að málið hafi ekki borist inn á borð til þeirra.

Helgi Rafn Brynjarsson var á sínum tíma sakaður um að hafa myrt hundinn Lúkas á Akureyri. Eftir það rigndi yfir hann hótunum á Netinu. Síðar kom í ljós að Lúkas var á lífi og við ágæta heilsu.

Erlendur Þór Gunnarsson segir að lagðar hafi verið fram kærur á hendur 100 manns. Þeir verði krafðir um skaðabætur á bilinu 100 þúsund krónur til ein milljón á hvern einstakling. Erlendur segir ennfremur að ákveði lögreglan að gefa ekki út ákærur í málinu þá verði höfðað einkamál gegn flestum þeirra sem hafa verið kærðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×