Innlent

Næststærsti Íslendingurinn ætlar í atvinnumennsku í körfubolta

Næststærsti Íslendingurinn ætlar að verða atvinnumaður í körfubolta. Hann er bara sextán ára gamall og er 2 metrar og 16 sentímetrar á hæð. Hann vantar tvo sentímetra til að verða sá stærsti.

Ragnar Ágúst Nathanaelsson er vægt sagt stór eftir aldri og er þegar farinn að láta að sér kveða á körfuknattleiksvellinum. Hann var reyndar farinn að spila með meistaraflokki Hamars einungis fimmtán ára en hann varð sextán ára í síðustu viku.

Ragnar fer létt með að troða og góma boltann enda hverfur venjuleg hönd inní lófann á þessum upprennandi snillingi, eins og krónupeningur inn í barnslófa.

Þótt Ragnar vanti bara tvo sentímetra til að verða stærsti Íslendingurinn þá á hann nokkuð langt í land með að ná Jóhanni Svarfdælingi. Jóhann Risi var tveir metrar og 31 sentímetri. Ragnar telur að hann muni ekki ná Jóhanni hvað hæðina varðar úr þessu.

Þrátt fyrir að nota stærri skó en almennt getur talist hefur Ragnar ekki verið í neinum vandræðum. Hann notar skó númer 51 og skóbúðin á Selfossi hefur haft gott úrval af skóm segir Ragnar.

Ragnar Ágúst ætlar sér ekkert annað en að komast í fremstu röð í körfuboltanum, hann ætlar sér ekki bara að ná langt, hann ætlar sér líka að ná hátt og verða atvinnumaður í íþróttinni.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.