Innlent

Geir segir áframhaldi stjórnarsamstarf blasa við

Geir Haarde, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í hádegisfréttum á Stöð 2 að flokkurinn væri ótvíræður sigurvegari kosninganna. Hann segir áframhaldandi stjórnarsamstarf blasa við.

„Ég tel að Sjálfstæðisflokkurinn hafi unnið stórkostlegan sigur í þessum kosningum og að það sé krafa kjósenda að við verðum áfram í forystu," sagði Geir. Hann sagðist telja að fylgishrun Framsóknarflokksins stafaði ekki af þáttöku þeirra í ríkisstjórn. „Framsóknarflokkurinn hefur verið að ganga í gegnum ákveðið erfiðleikatímabil í innra starfi sínu og ég held að það sé það sem valdið hefur þeim erfiðleikum.

Geir sagði að ríkistjórnin væri vel starfhæf þrátt fyrir að vera aðeins með eins manns meirihluta. „Það er nóg," sagði hann. „Þá er það bara spurning um hvort pólitískar forsendur séu fyrir því að stjórnin haldi áfram. Ég tel að það geti vel verið svo."

Forsætisráðherra sagði að formenn stjórnarflokkanna myndu ræða saman um áframhaldandi samstarf á næstu dögum. „Ég mun ekki biðjast lausnar, að minnsta kosti ekki að svo stöddu, á meðan við höfum ekki ákveðið annað, og stjórnin situr."

Geir segir því áframhaldandi stjórnarsamstarf framsóknar og Sjálfstæðisflokks blasa við. „Auðvitað eru aðriri möguleikar til í stöðunni með okkar stjórnarforystu, en það er ekkert sem kallar á breytingar."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×