Innlent

Dómur yfir Jónasi sá þyngsti sinnar tegundar

Hæstiréttur Íslands dæmdi í dag Jónas Garðarsson, fyrrverandi formann Sjómannafélags Reykjavíkur, í þriggja ára fangelsi fyrir manndráp af gáleysi. Dómurinn er sá þyngsti sinnar tegundar.

Jónas var ekki viðstaddur dómsuppkvaðningu í dag en ættingjar þeirra sem létust í slysinu fjölmenntu hins vegar í réttarsal. Hæstiréttur Íslands staðfesti þriggja ára fangelsisdóm Héraðsdóms Reykjavíkur en þetta er þyngsti dómur sem kveðinn hefur verið upp hér á landi fyrir manndráp af gáleysi.

Jónas var dæmdur fyrir að hafa verið valdur að dauða tveggja manna eftir að skemmtibátur hans, Harpan, steytti á Skarfaskeri á Faxaflóa haustið 2005. Jónas hélt því fram við aðalmeðferð málsins fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur að hann hefði ekki verið við stýrið þegar slysið varð heldur Matthildur Harðardóttir. Matthildur og sambýlismaður hennar, Friðrik Ásgeir Hermannsson, létust í slysinu en Jónas, kona hans og sonur komust lífs af.

Dómurinn tók ekki mark á vitnisburði Jónasar og taldi hann hafa gert sig sekan um að reyna að koma ábyrgð yfir á þá sem létust í sjóslysinu. Dómurinn taldi einnig að Matthildur hefði lifað af slysið hefði Jónas brugðist við með eðlilegum hætti. En á meðan hún var neðan þylja að huga að sambýlismanni sínum, stýrði Jónast bátnum af skerinu frá landi.

Eftir að dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi sagði Jónas sig frá öllum trúnaðarstörfum sem hann hefur gegnt fyrir Sjómannafélag Reykjavíkur, Sjómannasamband Íslands og Norræna flutningamannasambandið.

Einn dómaranna í málinu skilað sératkvæði og vildi að Jónas sæti í tvö og hálft ár í fangelsi í stað þriggja. Jónas var jafnframt dæmdur til að greiða aðstandendum þeirra sem létust í slysinu 9,6 milljónir króna í bætur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×