Innlent

Fundu kannabisplöntur í húsi í Þykkvabæ

MYND/Guðmundur

Lögreglan á Hvolsvelli lagði aðfaranótt gamlársdags hald á nokkrar plöntur í húsi í Þykkvabæ sem ætla má að séu kannabisplöntur. Eftir því sem kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni var um að ræða sameiginlega aðgerð lögreglumanna frá Hvolsvelli og Selfossi en grunsemdir höfðu vaknað eftir að ökumaður bifreiðar var stöðvaður af lögreglu við Selfoss með lítilræði af fíkniefnum í fórum sínum. Hann er einnig grunaður um að hafa verið undir áhrifum vímuefna við aksturinn.

Þetta er í annað sinn á til þess að gera stuttum tíma að kannabisplöntur eru haldlagðar hjá þessum sama einstaklingi og telst málið upplýst að sögn lögreglunnar á Hvolsvelli.

Umdæmi lögreglunnar á Hvolsvelli stækkaði umtalsvert nú um áramótin þegar umdæmi lögreglunnar í Vík færðist undir sameiginlega yfirstjórn Sýslumannsins á Hvolsvelli. Til varð lögreglulið með níu lögreglumönnum og er umdæmi þeirra alls um 15.400 ferkílómetrar að stærð með rúmlega 4.300 íbúa í fimm sveitarfélögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×