Innlent

250 skjálftar við Upptyppinga frá því á föstudag

Um tvöhundruð og fimmtíu skjálftar hafa mælst við Upptyppinga frá því á föstudag. Aðeins hefur grynnkað á skjálftunum frá því í vor þegar skjálftahrinur hófust á svæðinu.

Fyrstu skjálftahrinurnar við Upptyppinga mældust í febrúar en þá voru skjálftarnir á 19 til 20 kílómetra dýpi. Hrinunum fjölgaði síðan mjög í sumar og við hverja þeirra grynnkaði á skjálftunum. Sýna mælingar jarðfræðinga að skjálftarnir færast um hálfan kílómetra ofar í kvikunni á mánuði.

Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur sagði í fréttum Stöðvar 2 í lok október að þegar kvikan sem þarna er á hreyfingu næði föstu bergi, sem er á um 8 kílómetra dýpi, gæti hún leitað upp á yfirborðið sem Dyngjugos.

Skjálftahrinan nú hófst um hádegi á föstudag og stóð samfellt fram til klukkan fjögur í nótt. Alls hafa um 250 skjálftar mælst á svæðinu og eru þeir á um 14 kílómetra dýpi.

Bergþóra Þorbjarnardóttir, jarðeðlisfræðingur á Veðurstofunni, segir það vera í samræmi við fyrri mælingar, það er reglulega grynnkar á skjálftunum og æ fleiri skjálftar leita ofar.

Eins hafa skjálftarnir færst smám saman í norðaustur og eru nú um sjö kílómetrum norðaustan við svæðið þar sem þeir mældust í upphafi. Þeir séu þó enn á Kverkfjallasprungusvæðinu og enn sem komið er sé lítil hætta á eldgosi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×