Innlent

Saug upp eitur og vill miskabætur

Jón Hákon Halldórsson skrifar

Þrjátíu og tveggja ára gamall karlmaður hefur stefnt Samskipum vegna vinnuslyss sem hann varð fyrir þann 10. ágúst 2005. Þá var maðurinn við vinnu í þvottastöð Samskipa við Holtabakka.

Maðurinn var að reyna að ná olíuhreinsi í dælu, svo hægt væri að hreinsa vinnutæki sem Samskip notar. Dælan var biluð og reyndi maðurinn að koma dælunni í gang með því að taka slöngu fyrir ofan hana í sundur og sjúga vökvann upp í dæluna. Ekki vildi betur til en svo að þegar maðurinn var að ganga frá dælunni sprautaðist úr henni og ofan í manninn. Hann fann strax fyrir verulegum verkjum og var fluttur á spítala. Maðurinn hlaut varanlegan skaða í lungum og var metinn með 10% varanlega örorku eftir slysið.

Maðurinn krefst ríflega sex milljóna króna í skaðabætur. Fyrirtaka var í málinu i Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×