Innlent

Einn í haldi vegna fjölda innbrota - fleiri ákaft leitað

Karlmaður á þrítugsaldri var í Héraðsdómi Suðurlands í dag úrskurðaður í þriggja vikna gæsluvarðhald vegna gruns um aðild að fjölda innbrota í Árnes- og Rangárvallasýslum síðustu daga.

Lögreglan á Selfossi vinnur að rannsókn þessara mála.

Maðurinn var handtekinn að morgni 29. nóvember, er komið var að honum sofandi ölvunarsvefni á innbrotsvettvangi. Fljótlega náði lögreglan að mynda tengsl við fjölda innbrota sem tilkynnt hafði verið um daginn áður í Árnes- og Rangárvallasýslum.

Talið er fullvíst að fleiri aðilar tengist málinu og er þeirra ákaft leitað.

Í tengslum við rannsókn málsins lýsir lögreglan á Selfossi eftir sendibifreið af gerðinni Renault Master, hvítri að lit, árgerð 2007 Sendibifreiðin ber skráningarmerkið TV-Z28, hugsanlega hefur þó verið skipt um skráningarmerki á bifreiðinni.

 

Allir þeir sem veitt geta upplýsingar um ferðir ofangreindrar bifreiðar frá 27. nóvember s.l. eru beðnir um að hafa samband við lögregluna á Selfossi, í síma nr. 480-1010. Bifreiðinni var upphaflega stolið í Reykjavík þann sama dag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×