Innlent

Sex metra eikartré rifnaði upp með rótum á Húsavík

Guðbergur vonast til þess að hægt verði að bjarga eikinni.
Guðbergur vonast til þess að hægt verði að bjarga eikinni. Mynd/Guðbergur R. Ægisson

Íbúar á Höfðavegi 7c á Húsavík ráku upp stór augu þegar þau fóru út úr húsi í morgun. Forláta eikartré í garðinum hafði þá rifnað upp með rótum í vindhviðum gærkvöldsins og lagst á hliðina. Eigandi hússins telur að tréið hafi verið gróðursett á sjötta áratug síðustu aldar og er það um sex metrar á hæð.

„Ég varð ekki var við neitt í nótt og ég reikna með því að það hafi lagst hægt og rólega á hliðina," segir Guðbergur Rafn Ægisson, eigandi hússins. Hann segir að veðrið í nótt hafi ekki verið svo slæmt og því hafi sjónin sem blasti við honum í morgun komið honum á óvart. „Við grófum aðeins frá tréinu í sumar og það gæti verið hluti skýringarinnar hvers vegna það lagðist niður."

Guðbergur segist vera á leiðinni á fund með garðyrkjustjóra bæjarins til þess að sjá hvort ekki sé hægt að bjarga eikinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×