Innlent

Sagði vinstri - græna neikvæða og nöldrara

Gömlum samstarfsfélögum í R-listanum laust saman í fjárlagaumræðu á Alþingi í morgun þegar Steinunn Valdís Óskarsdóttir, þingmaður Samfylkingar, kallaði málefnaflutning vinstri grænna nöldur og neikvæðni.

Stjórnarandstaðan gagnrýndi fjárlagafrumvarpið harkalega í gær og sagði forsendur frumvarpsins ekki halda, óvissuþættir væru of miklir og áætlanir um minnkandi verðbólgu ekki trúverðugar.

Umræðunum var frestað klukkan eitt í nótt þegar hátt í tíu þingmenn voru enn á mælendaskrá. Þær hófust svo á nýjan leik klukkan hálfellefu í morgun og var það Steinunn Valdís Óskarsdóttir, þingmaður Samfylkingar, sem reið á vaðið. Hún gagnrýndi málflutning minnihlutans og sagði engan frambærilegar tillögur hafa komið frá vinstri - grænum.

Fyrrverandi samstarfsfélagi Steinunnar Valdísar úr borginni, Árni Þór Sigurðsson, var ekki sáttur. Ham sagðist frábiðja sér að vinstri - grænir væru afgreiddir með þessum hætti. Hann hlyti að spyrja Steinunni Valdísi hvort það hafi verið hennar reynsla af samstarfi þeirra í 12 ár í Reykjavík að hann stundaði ómálefnalegan málflutning og kæmi með óábyrgar tillögur.

Steinunni líði illa í kompaníi með Sjálfstæðisflokknum

Steinunn Valdís sagði hins vegar að ekki yrði litið fram hjá því að neikvæðni og nöldur sem oft og tíðum hefði komið frá vinstri - grænum væri ekki uppbyggilegt.

„Ég held, virðulegi forseti, að sannleikurinn sé sá, og ef ég þekk mína ágætu vinkonu, háttvirtan þingmann Steinunni Valdísi Óskarsdóttur, að henni líði bara svona óskaplega illa yfir því að vera í kompaníi með Sjálfstæðisflokknum," svarðai Árni og bætti við að ef svo væri gætu menn gert breytingar. Það hefðu framsóknarmenn gert í borginni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×