Innlent

Dæmdur fyrir að ráðast á leigubílsstjóra

MYND/Vilhelm

Karlmaður hefur í Héraðsdómi Reykjavíkur verið dæmdur í fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að ráðast á leigubílstjóra í mars síðastliðnum.

Atvikið átti sér stað í miðbæ Reykjavíkur. Maðurinn maðurinn gekk í veg fyrir leigubílinn á Suðurgötu og fór inn í bílinn og réðst á leigubílstjórann sem var með farþega í bílnum. Hótaði maðurinn bæði bílstjóranum og farþeganum lífláti og lét höggin dynja á bílstjóranum.

Farþeganum tókst að komast út og láta lögreglu vita sem kom og handtók manninn. Hlaut leigubílstjórinn áverka í andliti auk þess sem hann fingurbrotnaði í átökunum.

Árásarmaðurinn bar fyrir sig minnisleysi sökum ölvunar en út frá framburði leigubílstjórans og vitna var hann sakfelldur. Auk fjögurra mánaða skilorðsbundins fangelsis var maðurinn dæmdur til að greiða leigubílstjóranum rúmar 200 þúsund krónur í miskabætur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×