Innlent

Hellisheiði opnuð á ný en óveður á Suðausturlandi

Vegagerðin hefur opnað Hellisheiði en hún var lokuð framan af degi vegna hvassviðris og mikillar hálku.

Lögregla og björgunarsveitir þurftu í morgun að koma fjölmörgum til aðstoðar á heiðinni en nú hefur vind lægt og þá hefur Suðurlandsvegur einnig verið saltaður. Engu að síður er varað við hálku og skafrenningi á heiðinni og hálkublettum í Þrengslum.

Á Vesturlandi er hálka og hálkublettir á Snæfellsnesi og þá er stórhríð og ófært um Hrafnseyrarheiði og Dynjandisheiði á Vestfjörðum. Snjóþekja og stórhríð er á Steingrímsfjarðarheiði. Hálka og stórhríð er á Eyrarfjalli. Þorskafjarðarheiði er ófær.

Hálka, hálkublettir og éljagangur er víðast hvar á Norðurlandi og er óveður í Norðurárdal í Skagafirði og í Langadal. Á Norðausturlandi er hálka, hálkublettir og skafrenningur víðast hvar en óveður á Möðrudalsöræfum.

Á Austurlandi er víða hálka og hálkublettir en þungfært er um Oddskarð og ófært um Öxi og Breiðdalsheiði. Enn fremur er óveður undir Eyjafjöllum, í Sandfelli í Öræfum, á Höfn, í Lóni og í Hvalnesi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×