Innlent

Kanna möguleika á þráðlausu háhraðaneti í borginni

MYND/Valli

Samþykkt var á fundi borgarráðs í morgun sú tillaga borgarstjóra að fela þjónustuskrifstofu Reykjavíkurborgar að kanna möguleikann á þráðlausu háhraðaneti í Reykjavík.

Í tillögunni er gert ráð fyrir að horfa fyrst til miðborgarinnar, háskólasvæðisins í og í kringum Vatnsmýrina ásamt viðskiptahverfinu í kringum Borgartún. Á þjónustuskrifstofan meðal annars að kanna stofn- og rekstarkostnað við slíkt kerfi, mögulega fjármögnun og áhuga háskóla, ríkis og fjármálafyrirtækja á samstarfi í slíku verkefni.

Fram kemur í greinargerð með tillögunni að reynsla annara sveitarfélaga af þráðlausu neti sýni fram á það sé hagkvæmt í rekstri einstakra eininga sveitarfélaga og stuðli að auknum viðbragðsflýti í starfsemi úti á vettvangi, t.d. hjá slökkviliði og lögreglu og starfsfólki Bílastæðasjóðs.

Þá er bent á að mennta- og rannsóknarstofnanir hafi enn fremur nýtt sér slík net til að þróa hugbúnað og vélbúnað. Ferðamenn, íbúar og fyrirtæki hafi einnig nýtt sér þráðlaus net, en meðal sveitarfélaga sem hafa sett upp slíkt net eru Þrándheimur, London, París, Prag og borgir og bæir í Bandaríkjunum.

Þjónustuskrifstofa borgarinnar á að skila niðurstöðum athugunar sinnar fyrir 15. desember næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×