Innlent

Seldi Hörpu fyrir kyrr­setningu

Jónas Garðarsson mætir til þingfestingar vegna málsins.
Jónas Garðarsson mætir til þingfestingar vegna málsins. MYND/Valli

Jónas Garðarsson seldi skemmtibátinn Hörpu í byrjun árs í fyrra. Fréttablaðið greinir frá því í morgun að báturinn sé horfinn en hann var kyrrsettur af sýslumanni í október í fyrra. Jónas segist hafa verið í fullum rétti til að selja bátinn og segir sýslumann vera í dularfullum leiðangri því kyrrsetningarkrafan hafi verið sett fram löngu eftir að Jónas seldi Hörpu.

„Ég seldi bátinn í byrjun árs í fyrra," segir Jónas í samtali við Vísi. Aðspurður hver hafði keypt segir hann það ekki koma neinum við. „Ég var í fullum rétti til að selja bátinn á sínum tíma," segir Jónas og bætir því við að báturinn hafi því ekki verið á sínu nafni þegar sýslumaður gerði kyrrsetningarkröfuna.

„Ég held að sýslumaður sé í dularfullum leiðangri í þessu máli því það er ekki hægt að gera kröfur í hluti sem eru ekki til," segir Jónas. Hann segist ekki hafa hugmynd um hvaða áhrif þetta hefur á bótakröfurnar gegn sér en bátinn átti að selja og áttu aðstandendur þeirra sem létust þegar Harpa steytti á Skarfaskeri haustið 2005 að fá andvirði bátsins í sinn hlut.

Auk þess að vera dæmdur í þriggja ára óskilorðsbundið fangelsi fyrir manndráp af gáleysi var Jónas dæmdur til að greiða aðstandendum Matthildar Harðardóttur og Friðriks Hermannssonar um tíu milljónir króna í bætur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×