Innlent

Réð undirmann sinn og var sjálfur meðmælandi

Gunnsteinn Sigurðsson, skólastóri og bæjarfulltrúi í Kópavogi.
Gunnsteinn Sigurðsson, skólastóri og bæjarfulltrúi í Kópavogi.

Ráðning verkefnisstjóra tómstundamála hjá Kópavogsbæ hefur vakið umtal í bænum. Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar eru ósáttir við vinnubrögðin en þeir segja aðkomu formanns Íþrótta og tómstundaráðs Kópavogs orka tvímælis. Formaðurinn, Gunnsteinn Sigurðsson, bæjarfulltrúi, er jafnframt skólastjóri í Lindaskóla og yfirmaður Örnu Margrétar Erlingsdóttur, sem var ráðinn í starfið. Auk þess var Gunnsteinn skráður meðmælandi á umsókn hennar. 14 umsækjendur voru um starfið og mælti fulltrúi Samfylkingarinnar með Hrafnhildi Ástþórsdóttur í á þeim forsendum að hún væri hæfasti umsækjandinn, með meiri menntun og reynslu en Arna Margrét.

„Við fórum þess á leit við bæjarlögmann að hann myndi úrskurða um hæfi formanns ÍTK í þessu máli," segir Guðríður. „Hann er meðmælandi þeirrar konu sem er ráðin í stöðuna og samkvæmt stjórnsýslulögum gerir það hann vanhæfan til þess að taka afstöðu í málinu. Bæjarlögmaður svaraði okkur á fimmtudag og hann segir Gunnstein ekki vanhæfan vegna þess að hann vissi ekki af því að hann væri meðmælandi fyrr en umsóknin var lögð inn."

Guðríður segir málið því snúast um mismunandi túlkun á stjórnsýslulögum því að hennar mati geti ekki skipt máli hvort Arna hafi látið Gunnstein vita að hann væri meðmælandi hennar. „Túlkun bæjarlögmanns í þessu er enginn stóridómur og því höfum við ákveðið að skjóta málinu til félagsmálaráðuneytisins til úrskurðar,“ segir Guðríður.

 

Guðríður segir að Gunnsteinn hefði átt að segja sig frá málinu þegar í ljós hafi komið að hann væri meðmælandi hennar. Hún ítrekar að málið snúist ekki um persónu Örnu, heldur um vinnubrögð meirihlutans. „Maður hlýtur að spyrja sig hvort aðrir umsækjendur hafi setið við sama borð og sú sem var ráðin. Gunnsteinn er búinn að vera yfirmaður hennar í mörg ár og þetta orkar tvímælis, sérstaklega vegna þess að gengið er fram hjá umsækjanda sem hefur meiri reynslu og menntun í þessum tiltekna málaflokki," segi Guðríður.

„Við erum á engan hátt að gera lítið úr Örnu Margréti með þessu, hún er vafalaust mjög hæf en við töldum að annar umsækjandi hentaði betur miðað við þær kröfur sem settar voru fram í auglýsingunni."

Ekki náðist í Gunnstein Sigurðsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×