Innlent

Nýr orkuskóli tekur til starfa

Reykjavik Energy Graduate School of Sustainable Systems, orkuskóli á framhaldsstigi í eigu Orkuveitu Reykjavíkur, Háskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík, tók til starfa með formlegum hætti í dag. Viðstaddir opnunina voru meðal annars forseti Íslands og borgarstjórinn í Reykjavík sem ávörpuðu málþing sem haldið var í tilefni opnunarinnar.

REYST er skammstöfun á heiti skólans og er reiknað með að kennsla þar hefjist næsta haust. Skólinn verður til húsa í höfuðstöðvum Orkuveitu Reykjavíkur og þar mun íslenskum og erlendum stúdentum standa til boða framhaldsnám á háskólastigi í orkuvísindum þar sem grunnþættirnir eru náttúra, tækni og markaður. Aðaláherslan verður þó á þau svið þar sem Íslendingar hafa samkeppnisforskot, það er í jarðhitavísindum, eftir því sem segir í tilkynningu Orkuveitu Reykjavíkur.

Háskólarnir tveir eru faglegir bakhjarlar skólans og munu nemendur einnig njóta faglegrar þekkingar innan Orkuveitu Reykjavíkur auk þess sem fyrirtækið er fjárhagslegur bakhjarl skólans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×