Óljóst er hver átti frumkvæðið að því að borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins funduðu með formanni og varaformanni flokksins án Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar borgarstjóra. Kjartan Magnússon borgarfulltrúi kvaðst í hádegisviðtalinu á Stöð tvö í gær halda að Geir H. Haarde hafi viljað hitta borgarfulltrúana eina án borgarstjórans. Þetta sagði Kjartan í hádegisviðtalinu um fundinn og boðun hans:
"Ég held að það hafi verið formaðurinn sem hafi viljað hitta okkur ein, svona bara til að heyra okkar sjónarmið."
-Það var sem sagt formaðurinn sem bað um að fá að hitta ykkur án hans.
"Nei. Við báðum um að fá að hitta hann."
-Án Vilhjálms?
"Ja.. það var..það var ekkert rætt sérstaklega. Við vildum bara í heimsókn til hans."
-En afhverju vilduð þið skilja Vilhjálm eftir?
"Við vildum bara upplýsa formanninn um þá stöðu sem væri komin upp, að það væri meiningarmunur í þessu máli milli okkar og borgarstjóra."
-En sýndi þetta ekki í hnotskurn þann trúnaðarbrest sem var orðinn þarna á milli?
"Það var enginn trúnaðarbrestur. Það var aldrei neinn trúnaðarbrestur."