Innlent

Um hundrað milljónir í aðstoðarmenn og aukið alþjóðastarf

MYNDVilhelm

Reiknað er með tæplega 100 milljóna króna viðbótarframlagi til Alþingis vegna breytinga á þingsköpum og starfsaðstöðu þingmanna. Þetta kemur fram í nefndarálit meirihluta fjárlaganefndar vegna fjárlagafrumvarps næsta árs.

Búið er að leggja fram frumvarp um breytingar á lögum um þingsköp sem gerir meðal annars ráð fyrir því að ráðnir verði aðstoðarmenn fyrir formenn stjórnarandstöðuflokkanna auk þess sem gert er ráð fyrir sérstöku framlagi til aðstoðar fyrir þingmenn í Norðvestur-, Norðaustur- og Suðurkjördæmum. Er hugmyndin að tveir landsbyggðarþingmenn, sem ekki eru ráðherrar eða formenn stjórnarandstöðuflokks, deili með sér aðstoðarmanni. Þá er gert ráð fyrir meiri þátttöku stjórnarandstöðu í alþjóðastarfi og auknum ferðakostnaði því samfara.

Í nefndarálitinu er enn fremur gert ráð fyrir nærri 200 milljóna króna tímabundnu framlagi til forsætisráðuneytisins vegna endurbóta á byggingum stjórnarráðsins. Það er vegna sameiningar ráðuneyta og tilfærslu verkefna innan Stjórnarráðs Íslands.

Þannig verða gerðar breytingar á Sjávarútvegshúsinu vegna sameiningar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis auk þess sem viðskiptaráðuneytið flytur úr Arnarhvoli í Sölvhólsgötu 7 þaðan sem landbúnaðarráðuneytið flytur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×