Innlent

Halldór vill meira samstarf við Rússa

Halldór Ásgrímsson framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar segir að Norðurlöndin verði að finna leiðir til að hafa Rússa með í samstarfinu á Eystrasaltssvæðinu.

„Tíu af löndunum við Eystrasalt eru í raun hluti af innra markaði ESB en Rússar standa utan hans. Hagstæð efnahagsþróun í Pétursborg og nágrenni hefur áhrif á allt svæðið," segir Halldór.

Halldór lét þessi orð falla á árlegum leiðtogafundi Baltic Development Forum sem haldinn var í Tallinn dagana 4.-6. nóvember.

Toomas Hendrik Ilves forseti Eistlands gagnrýndi Norlægu víddina harðlega í setningarræðu sinni á sunnudag og sagði að áætlunin um hana hefði hingað til ekki komið Eystrasaltssvæðinu til góða, nema að hver einasti eyrir hefur runnið til Rússa.

Uffe Elleman-Jensen formaður Baltic Developmen Forum ítrekaði mikilvægi þess að aðilar í svæðasamstarfinu reyndu að hafa alla með, ekki útiloka aðra. Einungis á þann hátt verður samstarfið árangursríkt, telur Elleman-Jensen og framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar samsinnti því.

„Erum við tilbúin að líta á Rússland sem hluta af Eystrasaltssvæðinu? Okkur vantar vinnuafl og við verðum að starfa saman þvert á landamærin, þar verðum við að vera opnari" segir Halldór Ásgrímsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×