Innlent

Dagsektir á foreldra sem ekki nefna börnin sín

Leggja má dagsektir á foreldra sem ekki hafa gefið barni sínu nafn innan sex mánaða frá fæðingu þess og sinna ekki ábendingum yfirvalda um nafngift. Á sjötta tug lagabálka veita heimildir til dagsekta. Margir sjálfstæðismenn og Samtök atvinnulífsins hafa gagnrýnt ákvæði um dagsektir í jafnréttisfrumvarpi félagsmálaráðherra.

Þótt jafnréttisfrumvarp Jóhönnu Sigurðardóttur félagsmálaráðherra hafi verið borið undir báða þingflokka eru í því ýmis ákvæði sem Sjálfstæðismenn hafa gagnrýnt, meðal annars þingmennirnir Bjarni Benediktsson og Sigurður Kári Kristjánsson og formaður Landssambands sjálfstæðiskvenna. Bjarni hefur meðal annars gagnrýnt dagsektarákvæði í frumvarpinu. Þá hafa Samtök atvinnulífsins gert alvarlegar athugasemdir við frumvarpið og sagt að þar séu skaðlegar og íþyngjandi reglur fyrir atvinnulífið. Meðal annars hafa samtökin gert athugasemdir við ákvæði um viðurlög í formi dagsekta. Þau telja að hvatning og leiðbeiningar séu vænlegri til að jafnrétti verði náð.

Lögmaður sem fréttastofa ræddi við í dag segir dagsektir algengt úrræði til að knýja á um efndir laga gagnvart fólki og fyrirtækjum. Það má með sanni segja. Þegar lagasafn landsins er skoðað kemur í ljós að fimmtíu og þrír lagabálkar innihalda heimildir til dagsekta. Til dæmis má nefna, eins og kunnugt er, að fyrirtæki sem ekki hlíta tilmælum Samkeppniseftirlitsins um skil á gögnum má beita dagsektum. Eins má beita dagsektum á framleiðanda sem hefur merkt vöru sínu illa og hunsar tilmæli um breytingu þar á. Ef maður er að byggja hús, lendir í fjárkröggum og getur ekkert unnið í húsinu í tvö ár - getur sveitarstjórn, með sex mánaða fyrirvara, lagt dagsektir á manninn með byggingarleyfið.

Þetta vita eflaust ýmsir en líklega er fáum kunnugt um að ef foreldrar gefa ekki barn sínu nafn innan sex mánaða frá fæðingu þess og hunsa í einn mánuð áskorun um að drífa í að gefa barninu nafn - má beita foreldrana dagsektum.

Og varla vita fleiri að, samkvæmt byggingarreglugerð, má beita þá dagsektum sem ekki tyrfa og gróðursetja og ganga skikkanlega frá lóðum í kringum nýbyggingar sínar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×