Innlent

Milljarða kröfur frá ASÍ á ríkisstjórn

Heimir Már Pétursson skrifar

Alþýðusambandið vill að ríkið taki upp sérstakan 20 þúsund króna persónuafslátt fyrir þá lægst launuðu, sem kosta myndi ríkissjóð um 14 milljarða króna á ári. Forystumenn ASÍ telja óhjákvæmilegt að ríkisvaldið komi að kjaraviðræðum.

Samningar eru lausir um áramót og eiga verkalýðshreyfing og vinnuveitendur í viðræðum um nýja samninga til tveggja ára. Alþýðusambandsforystan gekk á fund forsætisráðherra, utanríkisráðherra, félagsmálaráðherra og fjármálaráðherra í dag og kynntu fyrir þeim hugmyndir ASÍ um aðkomu ríkisstjórnarinnar að samningum. Þar er gert ráð fyrir að tekinn verði upp sérstakur persónuafsláttur upp á 20 þúsund á mánuði, sem fari lækkani við 150 þúsund króna mánaðarlaun og hverfi við 300 þúsund.

Þá verði skerðingarmörk barnabóta hækkuð úr 95 þúsund króna tekjum í 150 þúsund og dregið úr eignatengingum vegna vaxtabóta.

Ingibjörg R Guðmundsdóttir varaforseti ASÍ segir ASÍ leggja áherslu á að bæta hag hinna lægst launuðu, enda hefðu margir þeirra setið eftir í launaskriðinu á yfirstandandi samningstíma.

Lagt er til að allar bætur, eins og atvinnuleysisbætur, verði að lágmarki 150 þúsund og að ríkisvaldið hækki framlag sitt til starfsmenntunar og fullorðinsfræðslu úr 200 milljónum í 700 milljónir. Ljóst er að heildarpakkinn mun kosta ríkissjóð hátt í 20 milljarða.

Geir H. Haarde forsætisráðherra segir í sjálfu sér jákvætt að Alþýðusambandið leggi fram tillögur sem við fyrstu sýn virðst reistar á traustum grunni. Nú muni stjórnvöld láta reikna út hvað þessar tillögur myndu kosta ríkissjóð.

Forsætisráðherra segir að allar tillögur um skattabreytingar nái til allra landsmanna en ekki eingöngu félagsfólk í ASÍ og því þurfi m.a. að skoða málin í því samhengi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×