Innlent

NÍ fagnar stefnumörkun í loftlagsmálum

Árni Finnsson er formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands.
Árni Finnsson er formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands.

Náttúruverndarsamtök Íslands fagna þeirri stefnumörkun ríkisstjórnar Íslands að samningar um framhald Kyoto-bókunarinnar skuli miða að því að fyrirbyggja að andrúmsloft jarðar htini um meira tvær gráður á Celcíus að meðaltali. Segja samtökin að þessi markmið séu í samræmi við tilmæli Milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar.

Ríkisstjórnin kynnti fyrr í dag þau mál sem hún hyggst vinna að á loftlagsráðstefnunni í Balí sem nú stendur yfir. Náttúruverndarsamtökin benda á að stefnumörkun stjórnvalda þýði að draga verði verulega úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda, að iðnríkin minnki losun sína um að minnsta kosti 30 prósent fyrir árið 2020 og að dregið verði úr heildarlosun í heiminum um 50 prósent fyrir 2050.

„Þau markmið gilda vitaskuld einnig um Ísland því öll iðnríki verða að ganga á undan með góðu fordæmi til að fá að samningaborðinu til að þróunarríki í örum hagvexti, Indland og Kína," segir í yfirlýsingu Náttúruverndarsamtakanna.

Náttúruverndarsamtök Íslands setja þó varnagla við undankomuleiðir sem tíundaðar eru í stefnu ríkisstjórnarinnar. Þar á meðal svo kallaða geiranálgun sem öðru fremur miðar að því að áliðnaðurinn verði undanþegin losunarmörkum einstakra ríkja. Ennfremur leggja Náttúruverndarsamtökin áherslu á að samdráttur gróðurhúsalofttegunda eigi sér stað á Íslandi en verði ekki fluttur út til þróunarlanda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×