Innlent

Loftlagsvandi ekki leystur án aðkomu atvinnulífsins

MYND/GVA

Ekki verður hægt að leysa loftlagsvandanna án aðkomu atvinnulífsins. Þetta segja Samtök atvinnulífsins sem ásamt systursamtökum sínum annars staðar á Norðurlöndum sendu í dag bréf til forsætis- og umhverfisráðherra Norðurlanda og forseta framkvæmdastjórnar ESB þar sem hvatt er til þess að stjórnvöld og atvinnulíf vinni saman að því að finna lausnir á loftslagsvandanum.

Í bréfinu segir að samtök atvinnulífsins á Norðurlöndum ræði nú af fullum þunga um leiðir til að vinna gegn þeim loftslagsbreytingum sem eru að eiga sér stað. Tillögurnar fela í sér sýn um nýtt alþjóðlegt samkomulag eftir að Kyoto-bókunin fellur úr gildi árið 2012.

Þá segja Samtök atvinnulífsins að þær þjóðir sem menga mest verði að koma að samkomulaginu og því þurfi ríki OECD að setja sér sambærileg markmið og Evrópusambandið hefur sett sér að ná fyrir árið 2020.

Hins vegar megi ekki raska samkeppnisstöðu fyrirtækja sem keppa á alþjóðlegum markaði og að unnið verði að því með fyrirtækjunum að takmarka útblástur á raunhæfan hátt. Mikilvægt sé að fyrirtæki sem starfa innan sömu greinar búi við sömu eða svipaðar kröfur hvar sem þau eru staðsett í heiminum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×