38 ára gamall karlmaður hefur verið úrskurðaður í viku gæsluvarðhald vegna andláts manns á fimmtugsaldri á Hringbraut. Maðurinn lá í blóði sínu heima fyrir þegar lögreglan kom á vettvang í gær og var úrskurðaður látinn síðar um kvöldið. Hinn grunaði, sem er nágranni þess látna, hefur lýst yfir sakleysi sínu í málinu.
Hinn grunaði segist hafa komið að nágranna sínum á heimili þess síðarnefnda þar sem hann lá útataður í blóði eftir fjölmörg höfuðhögg. Hann kveðst í kjölfarið hafa látið lögreglu og húsvörð hússins á Hringbraut vita. Skömmu eftir að lögreglan kom á vettvang í gær var hinn grunaði hins vegar handtekinn. Hann var síðan úrskurðaður í gæsluvarðhald til 15. október í dag, vegna rannsóknarhagsmuna.
Lögreglan hefur verið á þönum í húsinu á Hringbraut í dag við að rannsaka íbúðina.