Innlent

Olíuleki eftir að bátur sökk í Reykjavíkurhöfn

Sjötíu tonna mannlaus eikarbátur, Brokey frá Patreksfirði, sökk við bryggju í Reykjavíkurhöfn síðdegis í gær. Þegar þessar myndir voru teknar um hádegisbil sást olía leka úr bátnum og olíubrák var á sjónum. Eigandi annars báts, sem lá skammt frá, sagði Stöð tvö að meiri olía hefði lekið úr bátnum í gær og undraðist aðgerðarleysi hafnaryfirvalda. Hafnsögumaður sagði Stöð tvö að hafnarstarfsmenn hefðu ekki orðið varir við olíuleka og töldu ekki ástæðu til að grípa til aðgerða. Ekki er vitað hversvegna báturinn sökk en að sögn hafnsögumanns hafði hann legið við bryggjuna í nokkur ár í hirðuleysi. Reynt verður að ná honum upp eftir helgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×