Utanríkisráðherra mun ekki tjá sig um yfirlýsingu Ólafs Arnar Haraldssonar, fyrrverandi forstjóra Ratsjárstofnunar, í tengslum við brottvikningu hans úr starfi. Kristrún Heimisdóttir, aðstoðarmaður utanríkisráðherra, segir ráðherra ekki tjá sig um mál einstakra starfsmanna.
Í yfirlýsingu sem Ólafur Örn Haraldsson, fyrrverandi forstjóri Ratsjárstofnunar, sendi frá sér í morgun kom fram að það hafi verið utanríkisráðherra sem hafi tilkynnt honum í upphaf þessa mánaðar að til stæði að ráða nýjan forstjóra. Á fundi 12. október síðastliðinn hafi ráðherra síðan óskað eftir því að hann léti af störfum um þá komandi helgi.
Í samtali við Vísi sagði Kristrún Heimisdóttir, aðstoðarmaður utanríkisráðherra, að ráðherra hyggist ekki tjá sig um þessa yfirlýsingu. Þá sagði hún að tilkynnt verði um næstu skref í starfsmannamálum og stjórnun Ratsjárstofnunar eftir tvær til þrjár vikur.