Innlent

Frambjóðendur skipta mestu máli í Norðvesturkjördæmi

Rúmlega 57 prósent segja að stefnumál skipti meira máli en frambjóðendur þegar ákveðið er hvernig atkvæði eru greidd. 14,9 prósent segja frambjóðendur skipti meira máli en málefnin, en 28,0 prósent segja að frambjóðendur og málefni skipti jafn miklu máli þegar ákveðið er hvernig atkvæði þeirra fellur í kosningunum í dag.

Karlar segja frekar að málefni skipti höfuðmáli en konur. 59,0 prósent karla segja að þau ráði atkvæði sínu en 53,3 prósent kvenna. Konur eru hins vegar líklegri til að segja að jafn mikið tillit sé tekið til manna og málefna en karlar, 30,9 prósent kvenna en 25,6 prósent karla.

Ef litið er til svara í hverju kjördæmi fyrir sig er hæst hlutfall svarenda í Reykjavíkurkjördæmi suður sem sögðu stefnumál mestu skipta, eða 69,4 prósent þeirra. Minnst hlutfall þeirra sem fannst málefnin skipta mestu máli var í Norðvesturkjördæmi, þar sem 49,7 prósent sögðu þau ráða atkvæði sínu. Hæst hlutfall svarenda í Norðvesturkjördæmi sögðu frambjóðendur skipta mestu máli, eða 20,1 prósent þeirra. Lægst var hlutfallið í Reykjavíkurkjördæmi suður, þar sem 9,9 prósent sögðu frambjóðendur skipta meira máli en málefnin.

Hringt var í 2.000 manns í öllum kjördæmum 8. og 9. maí. Spurt var: Hvort skiptir meira máli þegar þú ákveður hvað þú kýst; frambjóðendur eða stefnumál? 96,7 prósent tóku afstöðu til spurningarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×