Innlent

Skrifuðu skýrsluna á íslensku

Feðgarnir Niels og Hans Mortensen (til hægri) voru ekki sáttir við yfirheyrslur lögreglu í Færeyjum.
Feðgarnir Niels og Hans Mortensen (til hægri) voru ekki sáttir við yfirheyrslur lögreglu í Færeyjum. MYND/GVA

Lögreglumenn þurftu að endurtaka yfirheyrslu yfir forsvarsmanni færeysku verslunarkeðjunnar SMS vegna tungumálaörðugleika. Hann var yfirheyrður í kjölfar húsleitar hjá SMS, skömmu eftir húsleit hjá Baugi sem hratt Baugsmálinu af stað.

Áfram var fjallað um Baugsmálið í héraðsdómi í gær. Fram kom hjá vitnum að ýmislegt hafi verið athugavert við yfirheyrslur yfir þeim Hans og Niels Mortensen, forsvarsmönnum SMS, sem er að hálfu í eigu Baugs.

Niels var yfirheyrður á færeysku, af þarlendum lögreglumanni, en íslenskur lögreglumaður ritaði skýrsluna eftir þýðingu færeyska lögreglumannsins yfir á ensku eða dönsku eftir því hvort skildist betur.

Regin Jørgensen, færeyski lögreglumaðurinn sem yfirheyrði Niels, sagðist hafa verið óánægður með þessi vinnubrögð, þau hafi verið frábrugðin því sem tíðkist í Færeyjum. Niels dregur í efa að ýmislegt sem þar kemur fram sé rétt eftir honum haft, en Regin þýddi íslenska textann fyrir Niels að yfirheyrslu lokinni

Jakob R. Möller, verjandi Tryggva Jónssonar, bað Regin að lesa tvær málsgreinar í skýrslunni fyrir dómi í gær, og viðurkenndi Regin að hann skildi ekki öll orðin í þeim texta. Hann sagðist við upphaf skýrslugjafar í gær skilja íslensku sæmilega, en ekki fullkomlega.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×