Innlent

Sitt sýnist hverjum um afnám launaleyndar

Afnám launaleyndar mun ekki jafna launamun kynjanna og aðeins skapa launaumræðu á kaffistofum landsins segir framkvæmdarstjóri Samtaka Atvinnulífsins. Skref í rétta átt segir talsmaður feminista.

Ríkisstjórnin samþykkti í gær frumvarp til laga um jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna. Um er að ræða ný heildarlög og eru nokkur nýmæli í frumvarpinu frá gildandi lögum. Þar er meðal annars lagt til að jafnhliða jafnréttisáætlun sem fyrirtækjum er skylt að gera skuli fylgja framkvæmdaráætlun þar sem fram kemur hvernig fyrirtækin hyggist framfylgja áætlun sinni. Þá verða heimildir Jafnréttisstofu til að fylgjast með framkvæmd laganna efldar og úrskurðir kærunefndar jafnréttismála gerðar bindandi. Jafnréttisstofa mun síðan hafa heimild til að beita fyrirtækjum dagsektum ef þau fara ekki að lögum. Launaleynd á vinnumarkaði hefur verið eitt bitbeinið í jafnréttisumræðunni og sitt sýnist hverjum. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að leggja til að samningsbundin launaleynd verði afnumin.

Steinunn Gyðu og Guðjónsdóttir, talsmaður feminista fagnar því að launaleynd skuli afnumin. Hún segir mikilvægt fyrir konur að geta borið sig saman við karlkyns kollega sína enda sé yfirmönnum ekki treystandi til að leggja málefnanlegt mat á laun kynjanna, það sýni allar rannsóknir.

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdarstjóri Samtaka atvinnulífsins segir afnám launaleyndar muni ekki hafa áhrif á launamuninn. Mórallinn á vinnustöðum verði ekki eins góður og að starfsmenn eigi að ræða laun sín við yfirmenn en ekki við hvern annan á kaffistofum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×