Innlent

Endurbótum á Grímseyjarferju ljúki í nóvemberlok

MYND/Stöð 2

Búist er við því að endurbótum á Grímseyjarferjunni verði lokið í lok nóvember en endanlegur kostnaður við kaup og endurbætur liggur ekki fyrir. 380 milljónum króna hefur þegar verið varið til verksins.

Ríkisendurskoðun birti í síðustu viku svarta skýrslu um Grímseyjarferjumálið þar sem fram kom að áætlaður kostnaður við kaup og endurnýjun  á ferju hefði upphaflega verið 150 milljónir. Nú er hins vegar ljóst að það kostnaðurinn fer yfir 400 milljónir.

Eftir að skýrsla Ríkisendurskoðunar var gerð opinber ákvað Kristján L. Möller samgönguráðherra að fela Vegagerðinni að mynda strax sérstakan verkefnahóp sem á að fara yfir stöðu málsins og gæta hagsmuna ríkissjóðs. Þá óskaði hann eftir við Vegagerðina að nákvæmri verk- og kostnaðaráætlun yrði skilað fyrir lok síðustu viku.

Að sögn Gunnars Gunnarssonar aðstoðarvegamálastjóra liggur verkáætlun nú fyrir en samkvæmt henni á Grímseyjarferjan að vera klár fyrir lok nóvember. Það verði í höndum eftirlitsaðila Vegagerðarinnar að fylgjast með að áætluninni sé fylgt eftir. Aðspurður um kostnaðaráætlunina segir Gunnar að 380 milljónir króna hafi þegar farið í verkið en um 30 milljónir séu eftir af samningsverkum. Þá sé ósamið um ýmis aukaverk og því liggi endanlegur kostnaður við ferjuna ekki fyrir.

Verkefnahópur sem skipaður var vegna málsins fundaði á miðvikudag og kemur til með að funda reglulega vegna málsins að sögn Gunnars. Hópurinn eigi að sjá til þess að verkinu ljúki og því verði fundað reglulega þar til það verður yfirstaðið.

Eiríkur Ormur Víglundsson, forstjóri Vélsmiðju Orms og Víglundar sem séð hefur um endurbætur á ferjunni, segir vinnu við Grímseyjarferjuna nú í fullum gangi og staðfestir að áætlað sé að ljúka endurbótum á ferjunni í lok nóvember. Ferjan er nú á floti í Hafnarfjarðarhöfn og segir Eiríkur og vinnu á ytra byrði hennar að mestu lokið en eftir eigi að ganga frá innréttingum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×