Erlent

Atvinnuleysi í Frakklandi ekki minna í 5 ár

Atvinnuástandið meðal ungs fólks í úthverfunum er meðal þáttanna sem verða kveikjan að bílbrennum og óeirðum.
Atvinnuástandið meðal ungs fólks í úthverfunum er meðal þáttanna sem verða kveikjan að bílbrennum og óeirðum. MYND/AP

Atvinnuleysi í Frakklandi í september mældist hið lægsta í fimm ár, 8,8%. Þetta eru góðar fréttir fyrir ríkisstjórn Dominique de Villepins, sem hefur lagt einna mesta áherslu á að auka atvinnutækifæri. Atvinnuleysi í Frakklandi hefur minnkað um rúmlega eitt prósentustig á einu og hálfu ári, þó að ungt fólk eigi enn nokkuð erfitt með að fá vinnu.

Jean-Louis Borloo, atvinnumálaráðherra Frakklands, er ánægður með árangurinn og telur að fréttirnar muni auka bjartsýni og efnahagurinn taki við sér þegar fólk telur sig hafa meiri peninga á milli handanna. Markmið Jaques Chiracs er að ná atvinnuleysi niður fyrir 8% á næsta ári. Ef áfram gengur vel í baráttunni við atvinnuleysið getur það ráðið miklu um úrslit forsetakosninganna í apríl og maí og svo þingkosninganna í júní.

Franskir ráðherrar gleðjast einnig mjög yfir því að atvinnuleysi meðal ungs fólks hafi lækkað um 11,5% síðastliðna 12 mánuði, en þrátt fyrir þann árangur mælist atvinnuleysi meðal ungs fólks þó enn 21,6% í september. Atvinnumálaráðherrann Borloo bendir þó á að hvergi hafi dregið hraðar úr atvinnuleysi meðal ungs fólks en í hverfum þar sem fátækar fjölskyldur, oft innflytjendur, búa í félagsíbúðum í úthverfunum. Atvinnuleysi og þröngur kostur er einmitt stór þáttur í óánægjunni sem hratt af stað óeirðum í fyrra og hefur stjórnin verið gagnrýnd fyrir ónógar aðgerðir í vanda úthverfanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×