Innlent

2 handteknir til viðbótar - 2 kæra gæsluvarðhaldsúrskurð

MYND/GVA

Tveir Íslendingar voru handteknir í gær í tengslum við stóra fíkniefnasmyglið sem komst upp í byrjun apríl. Tveir þeirra sem úrskurðaðir voru í gæsluvarðhald um helgina hafa kært úrskurðinn til Hæstaréttar.

Málið kom fyrst upp þann þriðja apríl síðastliðinn þegar tollgæslan fann fíkniefni í notaðri fólksbifreið sem flutt hafði verið til landsins. Samkvæmt heimildum NFS er um að ræða á milli tuttugu og þrjátíu kíló af amfetamíni og hassi. Lögreglan lét til skarar skríða, með liðsinni sérsveitar lögreglunnar, að kvöldi Skírdags þegar þrír menn tæmdu bílinn af fíkniefnunum í iðnaðarhúsi á Höfðanum í Reykjavík. Þrír Íslendingar og einn Hollendingur voru í framhaldinu úrskurðaðir í gæsluvarðhald til 5. maí. Tveir manna hafa kært úrskurðinn til Hæstaréttar og verður hann að líkindum tekinn fyrir í dag.

Í gær voru tveir Íslendingar til viðbótar handteknir í tengslum við rannsókn málsins en sleppt að loknum yfirheyrslum. Ásgeir Karlsson, yfirmaður fíkniefnadeildar lögreglunnar í Reykjavík, staðfesti þetta í samtali við fréttastofuna í morgun, en vildi ekki veita nánari upplýsingar um málið.

Í tilkynningu sem lögreglan hefur sent frá sér segir að ótímabær fréttaflutningur af málinu hafi þegar komið sér illa fyrir rannsóknina, og vegna rannsóknarhagsmuna verði að svo komnu ekki veittar frekari upplýsingar um málið. Í tilkynningunni er þó staðfest að um sé að ræða verulegt magn fíkniefna og með því mesta sem lagt hafi verið hald á í einu lagi hér á landi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×