Enski boltinn

Erfiðleikarnir skrifast að hluta á Dowie

Murray hefur látið í það skína að kaup Ian Dowie í sumar hafi verið tómt klúður
Murray hefur látið í það skína að kaup Ian Dowie í sumar hafi verið tómt klúður Nordic photos/afp

Richard Murray, stjórnarformaður Charlton í ensku úrvalsdeildinni, segir að hörmulegt gengi liðsins í síðustu leikjum skrifist að hluta til á fyrrum knattspyrnustjórann Ian Dowie sem rekinn var í haust, því það hafi verið hann sem stýrði leikmannakaupum hjá félaginu í sumar.

Ömurlegt keppnistímabil hjá Charlton féll í nýjar lægðir á þriðjudagskvöldið þegar liðið lét þriðjudeildarlið Wycombe henda sér út úr deildarbikarnum á heimavelli. Stuðningsmenn Charlton eru orðnir mjög þreyttir á algjöru getuleysi liðsins og heimta að Alan Pardew, fyrrum stjóri West Ham, verði ráðinn í stað Les Reed sem tók við stjórninni eftir að Dowie var rekinn.

"Les er að taka við skömmunum vegna gengi liðsins um þessar mundir og félagið gengur nú í gegn um mjög erfiða tíma. Það liggur í augum uppi að við verðum að gera róttækar breytingar á liðinu, því það var ömurlegt gegn Wycombe. Þeir sem fylgjast vel með spilamennsku liðsins vita þó ósköp vel að ástandið var alveg eins undir stjórn Ian Dowie og því liggur vandinn ef til vill hjá liðinu sjálfu.

Við eyddum gríðarlegum fjármunum í sumar af liði sem hafði ekki krónu til að eyða og kannski voru þessi kaup bara ekki nógu sniðug. Við munum eyða einhverjum peningum í janúar en ekki miklum - en ég vil taka það fram að við ætlum ekki að selja Darren Bent," sagði Murray.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×