Ekið var á mann við bílaleigu á Akureyri rétt eftir hádegi í dag. Maðurinn var fluttur á Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri en hann var með áverka á fæti.
Slysið varð með þeim hætti að ökumaður, sem var að skila bílaleigubíl, fipaðist við akstur. Þegar hann ætlaði að hemla við stétt fyrir framan húsið steig hann á bensíngjöf bílsins í stað þess að hemla og ók á starfsmann bílaleigunnar. Starfsmaðurinn klemmdist á milli bifreiðarinnar og hússins. Ökumaðurinn reyndist ekki hafa ökuréttindi þrátt fyrir að vera orðinn tvítugur en félagi hans fékk bílinn leigðan.