Innlent

Þörf á fleiri úrræðum

TÓMAS ZOEGA
TÓMAS ZOEGA

Tómas Zoega, yfirlæknir geðdeilar Landspítala - háskólasjúkrahúss (LSH), segir að starfsemi geðdeildarinnar þurfi stöðuga umræðu og mikilvægt sé að fjölbreytt meðferðarúrræði standi sjúklingum til boða bæði innan og utan geðdeildar.

Í Fréttablaðinu í gær gagnrýndi Elín Ebba Ásmundsdóttir, forstöðumaður iðjuþjálfunar á geðdeild LSH, meðferðarúrræði fyrir geðsjúka og sagðist vilja minnka umsvif geðdeildarinnar.

Tómas segir að á undanförnum árum hafi úrræði geðdeildarinnar verið skorin niður og rúmum fækkað um rúmlega eitt hundrað án þess að önnur úrræði kæmu í staðinn. „Ríkisstjórnin boðaði á sínum tíma komu sambýlis fyrir geðfatlaða en þau úrræði hafa ekki orðið að veruleika ennþá.“

Elín gagnrýnir einnig það stóra hlutverk sem læknar og hjúkrunarfræðingar gegna innan spítalans en Tómas segir eðlilegt að læknar gegni veigamiklu hlutverki innan LSH vegna reynslu sinnar og bakgrunns.

Tómas segir að ekki megi skerða starfsemi geðdeildarinnar meira en orðið er, þar sem engin önnur úrræði séu til staðar fyrir mikið veikt fólk eins og það sem leggst inn á geðdeild LSH. „Ég óttast að stærri úrræði fyrir geðsjúka sem komið væri á fót utan spítalans án aðkomu lækna gætu staðið á brauðfótum þótt auðvitað þurfi þeir ekki að koma að öllum úrræðum fyrir geðsjúka.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.