Innlent

Ekki lengur á bak við eldavélina

„Konan vill ekki lengur vera á bak við eldavélina og fyrst karlmennirnir eru teknir við þeim verkum þarf framkvæmdin að vera einföld.“ Þetta sagði Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra við opnun nýrrar flæðieldunarlínu Matfugls í Mosfellsbæ. Matfugl hefur keypt svokallaða flæðieldunarlínu sem gerir fyrirtækinu kleift að fullelda kjúklingabita fyrir pökkun svo það nægir að hita þá upp og það er jafnvel óhætt að borða þá kalda. Það er sem sagt fljótlegt að elda þá og við það eru margir kostir. „Konan vill ekki lengur vera á bak við eldavélina þannig að það er nýr tími runninn upp. Karlmenn eru sagðir grilla á Íslandi og þá þarf þetta nú að vera einfalt í sniðum fyrst þeir eru teknir við þeim verkum,“ sagði Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra við opnunina. Hann sagðist enn fremur fagna þessu mikla framtaki Matfugls og hann tryði því að það myndi auka hamingju fjölskyldunnar. Landbúnaðarráðherra setti svo línuna af stað. Pólverjinn Jazek sem hefur unnið í kjúklingabransanum í fimm ár raðaði krydduðum kjúklingjavængjum í kílóavís á bandið og tólf mínútum síðar komu þeir út fulleldaðir. Ráðherrann fékk að grípa fyrsta bitann, sjóðheitan og sagði hann smakkast prýðilega. Tækið kostaði um fjórtán milljónir króna en það getur eldað 150 til 500 kíló af kjúklingabitum á klukkustund, allt eftir tegund og gerð. Fuglinum er slátrað í hinum enda hússins og svo kemur hann út tilbúinn eftir tólf mínútna eldun, fer í kælingu, pökkun og getur verið kominn í verslanir samdægurs. Framleiðendurnir sverja og sárt við leggja að það geti ekki verið salmonella í honum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×