Innlent

Dæmdur fyrir að falsa sjúkraskýrslur og læknisvottorð

MYND/Vísir

Karlmaður var fundinn sekur í Héraðsdómi Reykjaness í dag um að hafa falsað sjúkraskýrslur, læknisvottorð og reikninga frá erlendum sjúkrahúsum fyrir fjórtán árum. Málið hafði áður fyrnst hjá Héraðsdómi Reykjavíkur.

Árið 1992 vöknuðu grunsemdir hjá þremur tryggingafélögum - VÍS, Sjóvá-Almennum og Tryggingamiðstöðinni - um að ekki væri allt með felldu varðandi sjö til átta tjónsatburði sem maðurinn, kona hans og sonur þeirra höfðu fengið greiddar verulegar fjárhæðir fyrir. Öll tilvikin áttu sér stað erlendis á árunum 1988 til 1991. Var því óskað eftir opinberri rannsókn og leiddi hún til ákæru í þremur af umræddum tilvikum. Hins vegar varð bæði dráttur á rannsókn málsins hjá lögreglu, og meðferð málsins hjá Héraðsdómi Reykjavíkur, og var dómur ekki kveðinn upp fyrr en sumarið 2004. Voru brotin þá fyrnd og ákærði því sýknaður, þrátt fyrir að játning hans lægi fyrir.

Tryggingastofnun ríkisins höfðaði þá einkamál á hendur manninum fyrir Héraðsdómi Reykjaness, þar sem maðurinn á nú lögheimili í hans umdæmi, og féll dómur í málinu í morgun. Þar var hann fundinn sekur um að hafa hafa falsað sjúkraskýrslur, læknisvottorð og reikninga frá erlendum sjúkrahúsum, meðal annars í tengslum við slys sem sonur mannsins átti að hafa lent í og meinta nýrnaaðgerð konu hans sen átti að hafa verið gerð í Austurríki. Manninum tókst þannig að svíkja út bætur fyrir rúmlega níu hundruð þúsund krónur. Var hinum dæmda gert að endurgreiða þá upphæð, með vöxtum, auk málskostnaðar upp á sjö hundruð þúsund krónur.

 

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×