Innlent

Stefnt að því að kalla um 20.000 bandaríska hermenn heim frá Írak

Mynd/AP

Bandaríkjastjórn stefnir að því að kalla tuttugu þúsund hermenn heim frá Írak eftir þingkosningar í landinu um miðjan desember. Bush forseti segir að vilji Íraka muni ráða því hvort bandarískum hermönnum í landinu verði fækkað eða fjölgað á næstu mánuðum.

Nú eru um 160 þúsund bandarískir hermenn í Írak og þeim hefur fjölgað jafnt og þétt undanfarið ár. Talsmenn varnarmálaráðuneytisins segja að nú sé kominn tími til að snúa þeirri þróun við. Strax eftir kosningar í Írak í desember verði tuttugu þúsund hermenn kallaðir heim frá Írak ef ástandið í landinu leyfi það.

Áætlun Bandaríkjastjórnar er þó algjörlega háð því að írakskar öryggissveitir verði tilbúnar til að leysa hermennina af hólmi.

Bush forseti segir að Bandaríkjamenn muni í einu og öllu fara að vilja írakskra stjórnvalda í málinu, enda hafi þau yfirsýn yfir það hversu vel öryggissveitir landsins séu í stakk búnar til að taka við af bandarískum hermönnum. Ef beðið verði um fleiri hermenn verði orðið við því og eins verði hermenn kallaðir heim ef stjórnvöld í Írak telji sig tilbúin að bera aukna ábyrgð á öryggi landsins.

Stuðningur við aðgerðir Bandaríkjamanna í Írak hefur aldrei verið minni og búist er við að Bush muni á næstunni í hverri ræðunni af annarri reyna að draga upp jákvæðari mynd af ástandinu í Írak, í því augnamiði að vinna hylli fólksins á nýjan leik. Í ræðu forsetans í herskóla í Maryland í dag er einmitt fastlega búist við að hann muni færa rök fyrir því að aðgerðirnar í Írak séu vel á veg komnar og á næstu misserum muni almenningur gera sér grein fyrir því hverju hefur verið áorkað í landinu.

Herferð Bush gæti þó reynst erfið fram að þingkosningunum í Írak fimmtánda desember, enda er búist við hrinu árása í landinu í aðdraganda þeirra.

Í morgun féllu níu manns í skothríð tíu grímuklæddra uppreisnarmanna á sendibifreið nærri borginni Bakúba. Undanfarnar tvær vikur hafa 200 óbreyttir borgarar fallið í árásum uppreisnarmanna í landinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×