Innlent

Ræða við ríkisstjórnina um aðgerðir

Forseti, framkvæmdastjóri og aðrir fulltrúar ASÍ hafa tvívegis fundað með forsætisráðherra og gera það í þriðja sinn í dag.
Forseti, framkvæmdastjóri og aðrir fulltrúar ASÍ hafa tvívegis fundað með forsætisráðherra og gera það í þriðja sinn í dag. MYND/Hari

Forystumenn Alþýðusambands Íslands ganga á fund helstu ráðherra ríkisstjórnarinnar klukkan þrjú í dag til að ræða hvaða aðgerða ríkið geti gripið til svo ekki þurfi að segja upp kjarasamningum.

Grétar Þorsteinsson, forseti Alþýðusambands Íslands, segist hóflega bjartsýnn á árangur af fundinum. Forysta Alþýðusambandsins hefur lagt áherslu á fjögur atriði sem hún vill að ríkið komi að. Í fyrsta lagi vill hún að stjórnvöld axli myndarlegan hlut í örorkubótagreiðslum lífeyrissjóðanna svo ekki þurfi að skerða lífeyrisgreiðslur enn frekar en þegar hefur verið gert. Hún vill þrýsta á um endurskoðun laga um atvinnuleysisbætur og leggur áherslu á tekjutengingu og hækkun atvinnuleysisbóta. Þá vill hún að ríkið leggi fé til starfsmennta og fullorðinsfræðslu. Fjórða málið, og það eina sem Grétar Þorsteinsson, forseti ASÍ telur nokkurn veginn í höfn, er löggjöf um starfsmannaleigur til að koma í veg fyrir undirboð og slælega meðferð erlendra starfsmanna.

Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra vildi ekki tjá sig að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun um hvert innlegg stjórnvalda í málið yrði. Hann sagði að það yrði hann að kynna fyrir fulltrúum Alþýðusambands Íslands áður en hann tjáði sig um það opinberlega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×