Innlent

Hótaði aldrei stjórnarslitum

Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra segist aldrei hafa hótað stjórnarslitum í kringum sölu bankanna. Hann segir úttekt Fréttablaðsins á sölu ríkisbankanna innihalda rangfærslur sem hefði mátt leiðrétta með einu símtali en aldrei hafi verið leitað eftir upplýsingum úr ráðuneytinu. Halldór segir það alrangt að stjórnvöld hafi reynt að búa til kaupendur að bönkunum eftir sínu höfði. Það hafi einfaldlega verið auglýst eftir áhugasömum kjölfestufjárfestum. Í úttekt Fréttablaðsins á sölu ríkisbankanna kemur fram að Halldór hafi rætt við fulltrúa Kaldbaks og S-hópsins, sem báðir vildu kaupa í bönkunum, og hvatt þá til að sameinast um kaupin á Búnaðarbankanum haustið 2002. Halldór staðfestir þetta samtal en segir ekkert óeðlilegt við það. Hann segir Jóhannes Geir Sigurgeirsson hafa leitað eftir samtali við sig en hann hafi ekki haft tíma í það, auk þess sem ráðherra var staddur á Selfossi, og beðið þá um að hringja í sig sem þeir hafi gert. Halldór sagðist lítið geta gert í málinu en farsælast væri ef þeir gætu sameinast í málinu. „Þeir gerðu það ekki og ég hafði engin frekari afskipti af því,“ segir Halldór. Aðspurður hvort eðlilegt hafi verið að ráðherrar í ríkisstjórninni gripu fram fyrir hendurnar á einkavæðingarnefnd segir Halldór að það hafi ekki verið gert. Það liggi þó ljóst fyrir að ráðherrar taki endanlegar ákvarðanir en ekki embættismenn. Halldór segir það einnig „tóma vitleysu“ að hann hafi hótað stjórnarslitum vegna málsins. „Allt þetta hefði verið hægt að leiðrétta með einu símtali en viðkomandi virðast ekki hafa haft áhuga á því,“ segir forsætisráðherra. Halldór vísar því sem sagt á bug að nokkuð óeðlilegt hafi verið við afskipti stjórnvalda af sölu Landsbanka og Búnaðarbanka og vísar í skýrslu Ríkisendurskoðunar.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×