Innlent

Vilhjálmur vill prófkjör

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjórn, vill að flokkurinn haldi prófkjör fyrir borgarstjórnarkosningarnar á næsta ári. Hann sækist eftir fyrsta sætinu og lítur ekki á það sem þrýsting á sig þótt Gísli Marteinn Baldursson hafi einnig lýst áhuga á að leiða flokkinn í kosningunum. Borgarstjórnarflokkur sjálfstæðismanna kynnti hugmyndir sínar um framtíðarskipulag í Reykjavík á blaðamannafundi í dag. „Búum til betri borg, horfum lengra, hugsum stórt“ er yfirskrift hugmyndanna og er meginmarkmiðið að auka lífsgæðin í borginni og fjölga íbúum til næstu 30-40 ára. Flokkurinn vill nota það ár sem er til næstu borgarstjórnarkosninga til að vinna að hugmyndunum í samvinnu við borgarbúa og verður íbúaþing haldið í næsta mánuði. Hann vill styrkja borgina við Sundin með sérstakri eyjabyggð, þróa íbúabyggð á eyjunum og tryggja vegtengingar við borgina. Vilhjálmur segir byggðina rúma a.m.k. 30 þúsund manns. Vilhjálmur sækist eftir því að leiða Sjálfstæðisflokkinn í borgarstjórnarkosningunum að ári, enda telur hann sig hafa ágæta reynslu og þekkingu á borgarmálum. Hann leggur mikla áherslu á að það verði prófkjör. Gísli Marteinn hefur einnig lýst yfir áhuga á að leiða flokkinn í kosningunum á næsta ári en hann segir tíma kominn á kynslóðaskipti í hugmyndum sjálfstæðismanna. Vilhjálmur segist ekki líta á þau ummæli sem þrýsting á sig. Enginn ágreiningur hafi verið um störf borgarstjórnarflokksins á síðasta kjörtímabili.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×