Innlent

Stefnir á stórsókn á miðjunni

Yfirburðasigur Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur í formannskjöri Samfylkingarinnar markar þáttaskil í sögu flokksins. Tveir af hverjum þremur hinna tólf þúsund samfylkingarmanna sem greiddu atkvæði í kjörinu veittu henni umboð til þess að leiða flokkinn inn í næstu þingkosningar og sveitarstjórnarkosningar og töldu hana þar með vænlegasta til þess að leiða flokkinn til sigurs. Fæstum þeim sem voru á landsfundinum komu úrslitin á óvart. Stuðningsmenn Ingibjargar sögðust margir hverjir hafa reiknað með því að hlutföllin yrðu 35 prósent á móti 65 prósentum, Ingibjörgu Sólrúnu í vil, sem var nokkuð nærri endanlegri niðurstöðu, sem var 33 prósent á móti 66 prósentum. Enginn þeirra hafi undir það síðasta efast um að hún bæri sigur úr býtum og að munurinn yrði aldrei minni en 40 prósent á móti 60 prósentum. Stuðningsmenn Össurar segjast hafa verið búnir að búa sig undir ósigur. Hins vegar hafi munurinn verið nokkur vonbrigði, en jafnframt skýr skilaboð um vilja flokksmanna. Metþátttaka í formannskosningu Nýir tímar eru fram undan hjá Samfylkingunni og í íslensku stjórnmálalandslagi. Aldrei fyrr hafa jafnmargir tekið þátt í kjöri formanns í einum stjórnmálaflokki og að formannsslagnum loknum hefur Samfylkingunni tekist að koma sér upp öflugri kosningamaskínu á borð við þá sem Sjálfstæðisflokkurinn getur státað af en Samfylkinguna hefur hingað til skort. Það má ef til vill halda því fram að það besta sem komið hafi fyrir Samfylkinguna sé það að Össur og Ingibjörg tókust á um formannssætið. Fyrir tilstuðlan tveggja öflugra stuðningsmannahópa bættust sjö þúsund nýir félagar í Samfylkinguna en eftir á að koma í ljós hversu margir þeirra verða áfram í flokknum og eins hverjir munu starfa í þágu hans. Þó er það enn mikilvægara fyrir flokkinn að nú hefur verið komið upp þýðingarmiklu stuðningsmannaneti Samfylkingarinnar um allt land. Í næstu kosningum þarf því einungis að byggja á þeirri vinnu sem farið hefur fram undanfarna mánuði og tryggja að þeir sem störfuðu í þágu annars hvors frambjóðandans í formannskjörinu sýni sama áhuga á að starfa í þágu Samfylkingarinnar. Grundvöllurinn fyrir því að það takist er sá að fylkingarnar tvær sem tókust á í formannskjörinu nái að slíðra sverðin og vinna saman í þágu flokksins og málstaðarins. Þótti sýna drengskap og reisn Fulltrúar á landsfundi eru almennt á þeirri skoðun að það hafi þegar gerst - og ekki síst fyrir tilstuðlans Össurs Skarphéðinssonar, sem þótti sýna einstakan drengskap, reisn og sáttfýsi þegar tilkynnt var um úrslitin. Jafnvel var um það talað á landsfundinum að Össur hefði strax í setningarræðu sinni á föstudagskvöldið hafið að búa stuðningsmenn sína opinberlega undir ósigur og að hann hafi ekki síst verið að beina orðum sínum til þeirra þegar hann talaði um mikilvægi þess að sýna samstöðu, eindrægni og samheldni. Samstaðan væri það afl sem ekkert gæti staðist. Í sigurræðu sinni í gær tók Ingibjörg Sólrún undir orð Össurar frá deginum áður um það hve mikilvægt væri fyrir Samfylkinguna alla að fylkingarnar tvær störfuðu saman sem órofa heild. Á milli línanna í ræðu hennar mátti lesa skilaboð til stuðningsmanna Össurar um að á kröftum þeirra væri þörf og að þeir ættu sér áfram framtíð innan flokksins. Í ræðu sinni sem Össur hélt í gær eftir að úrslitin voru tilkynnt ítrekaði hann þessi skilaboð. Hann sagði það hlutverk Samfylkingarinnar að hjálpa Ingibjörgu Sólrúnu að breyta Íslandi og hét því jafnframt að halda áfram starfi sínu í stjórnmálum. Það á þó eftir að koma í ljós hvort gróa muni um heilt fylkinganna á milli eða hvort gjáin sem myndast hafi sé of djúp til að hana megi brúa auðveldlega. Vinstra megin við miðju Samfylkingarfólk segir að Ingibjörg Sólrún stefni að því að leiða flokkinn örugglega inn að miðju íslenska stjórnmálalandslagsins, þótt flokkurinn muni áfram haldast vinstra megin. Þar sé öruggasta sóknin í þeirri breiðfylkingu sem Samfylkingin sé nú orðin með næstflesta flokksbundna félaga í stjórnmálaflokki á Ísland, rúmlega tuttugu þúsund. Þá hafi Ingibjörg Sólrún sýnt það í starfi sínu í Framtíðarhópi Samfylkingarinnar að hún sé fær um að stuðla að skýrri og þroskaðri stefnumótun, sem nauðsynleg sé til þess að leggja grunn að velgengni Samfylkingarinnar í næstu þingkosningum. Ingibjörg Sólrún hefur sjálf gagnrýnt flokkinn fyrir hversu illa hann hafi verið búinn undir síðustu þingkosningar. Þegar hún kynnti skýrslu Framtíðarhópsins á landsfundinum á föstudaginn sagði hún að stefnuvinnu í flokknum hefði ekki verið gefinn nægur gaumur og því hefði Samfylkingin ekki verið nægilega skýr kostur fyrir kjósendur. Flokkinn hefði því skort ákveðinn trúverðugleika. Skýra og skarpa stefnuskrá Næsta verkefni Samfylkingarinnar verður því að skerpa og skýra stefnu flokksins í öllum helstu lykilmálum hans en jafnframt að reyna að marka flokknum sérstöðu á miðjunni. Stefnt er að því að mynda samstöðu um að forðast öfgar til hægri og vinstri og innleiða nýja hugsun í íslenska pólitík þar sem einkaframtakinu og hinu opinbera verði í auknum mæli gert að starfa saman í þágu almennings. Markmið Samfylkingarinnar í heilbrigðismálum er angi af þeirri stefnu. Í niðurstöðum starfshóps Samfylkingarinnar í heilbrigðismálum er lagt til að auka vægi einkareksturs, útboða og þjónustusamninga í heilbrigðisþjónustu og bent á kosti sjálfseignarstofnana í heilbrigðisþjónustu. Klók að lesa í stöðuna Meðal þeirra kosta sem Ingibjörg Sólrún er talin búa yfir og gera hana að öflugum leiðtoga eru þeir að hún þykir búa yfir góðu innsæi og vera mjög hæf í að lesa í hvaða stöðu sem upp komi og draga af henni ályktanir. Sem dæmi um það hefur verið nefnt að hart var sótt að henni í aðdraganda síðasta landsfundar, 2003, þar sem hún var hvött til að bjóða sig fram til formanns þá. Hún hafi sjálf talið það heillavænna að bíða í tvö ár. Það hafi bæði verið vegna þess að þá væri að hefjast nýtt sóknarfæri fyrir Samfylkinguna er nær dregi næstu kosningum, fyrst til sveitarstjórna og síðan til Alþingis og einnig vegna þess að hún hafi talið þá að Össur hafi ekki starfað nægilega lengi sem formaður og að hann þyrfti að fá tækifæri til að spreyta sig í önnur tvö ár í formannsembætti. Óttast kvennavöld Í átökunum í formannsslagnum hefur Ingibjörg Sólrún meðal annars verið gagnrýnd fyrir að safna í kring um sig hirð kvenna og varað hefur verið við hættunni á því að ef Ingibjörg Sólrún verði formaður Samfylkingarinnar muni flokkurinn breytast í nýjan Kvennalista. Ingibjörg Sólrún er sögð vera meðvituð um það að hún verði að að gæta þess að hennar nánustu samstarfsmenn verði af báðum kynjum, stjórnmál á Íslandi séu hreinlega ekki lengra á veg komin í jafnréttisátt en það. Kyn einstaklinga skipti máli þegar konur eigi í hlut, en ekki karlar. Minnst var á það að engin hefði bent á þá staðreynd að í innsta hring Össurar hefðu um langa hríð einungis verið karlmenn. Kynjahlutföll í forgrunni Kynjahlutföll höfðu veruleg áhrif á kosningu í önnur embætti flokksins. Rætt var um það að útilokað hafi verið að Jóhanna Sigurðardóttir gæti náð kjöri til varaformanns flokksins í ljósi þess að bæði formaður flokksins og formaður þingflokksins væru konur. Samfylkinginn væri, ekki fremur en aðrir flokkar, einfaldlega ekki kominn svo langt á veg til jafnréttis að þrjár konur gætu raðast í þrjú æðstu embætti flokksins. Hins vegar þætti aldrei neitt tiltökumál að þrír karlmenn gegndu sambærilegum embættum. Stuðningsmenn Gunnars Svavarssonar, sem kjörinn var sem nýr formaður framkvæmdastjórnar, lögðu mikla áherslu á það að kona næði kjöri sem ritari flokksins. Öðruvísi ætti Gunnar ekki möguleika því hann bauð sig fram gegn konu, Sigrúnu Grendal. Helstu baráttumenn flokksins fyrir jafnrétti kynjanna höfðu það á orði að staðan væri nú sú að ekki veldust endilega hæfustu einstaklingarnir í hvert embætti heldur væri kyn þeirra sá þáttur sem hvað mestu réði. Þetta væri hins vegar vonandi aðeins tímabundin staða og undanfari allsherjar jafnréttis þegar kyn einstaklinga skipti ekki lengur máli, heldur hæfi þeirra.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×