Innlent

Aldrei fleiri kosið

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir er nýr formaður Samfylkingarinnar. Hún hlaut tvo þriðju allra atkvæða í póstkosningu meðal tólf þúsund félaga flokksins. Aldrei hafa fleiri kosið í formannskosningum hjá íslenskum stjórnmálaflokki. Ný forysta Samfylkingarinnar fékk afgerandi kosningu á landsfundinum í Egilshöll í dag. Miklu taugastríði í flokknum er þar með lokið. Alls bárust 12.015 atkvæði í póstkosningu Samfylkingarinnar um formann flokksins og fékk Ingibjörg Sólrún Gísladóttir 7997 atkvæði, eða 66% atkvæða, en sitjandi formaður, Össur Skarphéðinsson, hlaut 3970 atkvæði, eða 33% atkvæða. 40 seðlar voru auðir og átta ógildir. Ingibjörg sagði persónulega sigra marka engin sérstök tímamót í Íslandssögunni, jafnvel þó að þeir geti verið sætir. „Það eru aðeins sigrar hugsjóna og hreyfinga sem skipta máli og þá, og því aðeins, skiptir niðurstaðan í þessu formannskjöri máli að hún leiði okkur til sigurs í þeim kosningum sem framundan eru. Þar liggur okkar sögulega tækifæri, þar skrifum við söguna og mótum framtíðina,“ sagði Ingibjörg. Ingibjörg Sólrún þakkaði mótframbjóðanda sínum fyrir drengilega baráttu og sagði hana honum og hans liðsmönnum til sóma. Hún sagðist hlakka til að vinna með Össuri að málefnum Samfylkingarinnar um ókomin ár.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×