Innlent

Vafasamar skráningar í flokkinn

Móðir misþroska drengs hringdi öskureið á skrifstofu Samfylkingarinnar í gær og kvartaði undan því að fimmtán ára sonur hennar hefði verið skráður í Samfylkinguna. Þá hringdi starfsmaður sambýlis fyrir þroskahefta og benti á að heimilismaður hefði fengið sendan kjörseðil og óskaði eftir að hann yrði strikaður út. Mikið hefur verið hringt á skrifstofu Samfylkingarinnar og kvartað yfir því að fólk hafi verið skráð í flokkinn án sinnar vitundar eða gegn vilja sínum. Flosi Eiríksson, formaður kjörstjórnar Samfylkingarinnar, segir nokkuð ljóst að menn hafi farið offari og skráð einhverja sem ekki vilji vera í flokknum. Það sé ekki vilji flokksins og hann hvetur fólk til að hafa samband til að hægt sé að lagfæra slík tilvik. Skýringuna á þessu telur hann vera þá að menn hafi verið orðnir full ákafir síðustu dagana áður en kjörskránni var lokað. Þá var skýrt frá því fyrir skemmstu að hópur barna í grunnskóla í borginni hefði skráð sig í Samfylkinguna samkvæmt beiðni einhverra kosningasmala sem sögðu nauðsynlegt að koma Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur burt. Flosi segir að ef áðurnefndur misþroska drengur hafi verið skráður í Samfylkinguna, gegn hans vilja, þá sé það klárt brot á lögum og reglum flokksins og verði að sjálfsögðu leiðrétt. Hins vegar varist flokkurinn að draga fólk í einhverja sérstaka dilka eða hópa.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×