Innlent

Fannst Össur tala niður til sín

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sakar Össur Skarphéðinsson um að tala niður til sín með því að segjast sjálfur hafa lagt allt undir til að gera hana að forsætisráðherra fyrir síðustu þingkosningar. Össur segist síður en svo hafa talað niður til Ingibjargar. Ingibjörg Sólrún og Össur voru gestir í Íslandi í dag í gærkvöldi og ræddu þau um kosningabaráttuna vegna formannsslagsins í Samfylkingunni fyrir landsfundinn í næsta mánuði. Össur var spurður að því hvað hefði breyst frá því hann lýsti því yfir fyrir þingkosningarnar 2003 að Ingibjörg Sólrún væri kraftmikill og öflugur stjórnmálamaður og að Samfylkingin þyrfti leiðtoga eins og hana. Hann svaraði því að þetta hefði hann sagt í miðri kosningabaráttunni þar sem allt hefði verið lagt undir til að gera hana að forsætisráðherra, enda hefði það verið hans skylda sem leiðtogi flokksins.  Ingibjörg Sólrún var ósátt við hvernig Össur talaði um sig. Hún sagði að henni mislíkaði þegar talað sé um að einhver kalli mann til verka og geri mann að forsætisráðherra. Það hljómi eins og hún sé bara einhver strengjabrúða sem hægt sé að toga í. Ingibjörgu fannst Össur þannig tala niður til sín en hann sagði það ekki hafa verið ætlunina.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×