Lífið

Plant kemur á miðvikudag

Fyrrum söngvari Led Zeppelin, Robert Plant, kemur hingað til lands ásamt hljómsveit sinni The Strange Sensation næstkomandi miðvikudag. Tónleikar kappans verða haldnir tveimur dögum síðar í Laugardalshöll og hefur hann því ágætan tíma til að endurnýja kynni sín af landi og þjóð, en eins og kunnugt er spilaði Led Zeppelin hér á landi árið 1970. Robert Plant þykir í feiknagóðu formi þessa dagana og er nýjustu plötu kappans, Mighty Rearranger, beðið með mikilli eftirvæntingu. Geta tónleikagestir hér á landi keypt plötuna tveimur vikum áður en hún kemur út í Evrópu og Bandaríkjunum. Á efnisskrá Plants eru ekki aðeins ný lög og lög frá farsælum sólóferli hans heldur má þar líka finna rjómann af því besta sem Led Zeppelin gerði. Eru á efnisskránni að jafnaði sex til níu Led Zeppelin-lög. Miðar í stúku og bekki á tónleikana seldust upp á mettíma fyrir nokkru síðan en miðar í stæði eru enn til. Miðasala fer fram á Hard Rock Café Kringlunni, Pennanum Glerártorgi, Pennanum Akranesi, Hljóðhúsinu Selfossi, Hljómvali Keflavík og á midi.is. Miðaverð er 4.500 kr.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.