Innlent

Össur sendir Ingibjörgu sneið

Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, segir fátt nýtt koma frá framtíðarhópi flokksins en honum stýrir Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, keppinautur hans um formannssætið í flokknum. Stuðningsmenn Össurar hafa kvartað undan aðferðum stuðningsmanna Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur í formannsslagnum - og Össur sjálfur var greinilega pirraður í Silfri Egils í dag. Hann hvatti svilkonu sína til að gera það sama og hann kvaðst gera þegar stuðningsmenn sínir væru með of harkalegar „skriðtæklingar“: sýna þeim gula spjaldið  Össur veitti líka framtíðarhópi Samfylkingarinnar, sem mótframbjóðandi hans stýrir, ádrepu og sagði miklu minna koma frá honum en búið var að lofa. Einar Karl Haraldsson, stuðningsmaður Össurar, hefur lýst því yfir að starfshættir framtíðarhópsins minni á hugmyndafræðilega yfirtöku - og falli ekki að fulltrúalýðræði flokksins. Össur segir að fleiri en Einari Karl líki ekki vinnubrögð framtíðarhópsins og nefnir Guðmund Árna Stefánsson í því samhengi. Hann segir Guðmund hafa sagt sig frá hópnum í kjölfarið. Flokksformaðurinn er í augljósum kosningaham og segir að Samfylkingin sé ekki að kjósa menn heldur málefni. Hann segir að það sé áherslumunur á milli hans Ingibjargar, t.a.m. varðandi margskiptan tekjuskatt og einkavæðingu hverfisgrunnskóla.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×