Menning

Í fantaformi á fjöllum

Margrét fékk göngubakteríuna þegar henni var boðið í svokallaða "Laugavegs"-göngu fyrir þrettán árum. "Það vildi svo heppilega til að ég átti afmæli um svipað leyti og bað um að afmælisgjafirnar tengdust ferðinni. Ég hef bókstaflega verið á göngu síðan," segir Magrét og hlær. "Á vorin fer ég á fjöll og kem eiginlega ekki aftur niður á jafnsléttu fyrr en að hausti."

Margrét gengur jafnt innanlands sem utan og hefur nú þegar gengið í 16 löndum. Oftast er hún leiðsögumaður og hún heldur líka utan um hóp af fólki sem gengur með henni öll sumur. "Ég læt vita hvenær og hvert ferðinni er heitið og fólk þarf ekkert að gera nema mæta. Næst ætlum við til Slóveníu, en þar höfum við aldrei gengið áður. Það er nauðsynlegt að fara á nýjar slóðir og maður upplifir lönd og staði á svo sérstakan hátt á göngunni. Maður er í nánum tengslum við landið og náttúruna og þá skapast sérstök tengsl milli ferðafélaganna. Það er alltaf gist og borðað í skálum og þar sofum við saman eins og sardínur í dós. Svo endum við ferðina gjarnan á strönd í nokkra daga. Hláturinn, gleðin og endorfínstreymið í þessum ferðum er engu líkt."

Margrét kennir kaðlajóga þegar hún er ekki upp um fjöll og firnindi, þannig að hún er í afspynugóðu formi og segist hlæjandi hafa verið beðin um nafnskírteini ekki alls fyrir löngu þegar hún fór á ball. "Geri aðrar 52ja ára konur betur," segir hún. Göngur hennar henta ekki hverjum sem er en Margrét segir gönguferð á Esjuna ágætis viðmið. "Ef fólk gengur á Esjuna og er tilbúið að gera það aftur daginn eftir þá er það í nógu fínu formi til að koma með."

Hún segir gönguna og jógað fara sérlega vel saman. "Að gera jógaæfingar á fjöllum eftir góða göngu er alveg æðislegt. Það felst líka svo mikið jóga í göngunni sjálifri, maður er í friði og ró með pokann sinn og lærir svo margt um eigin þarfir. Það er ekkert annað í boði en það sem er í pokanum þannig að maður verður að læra hvers maður þarfnast helst og hvernig maður nýtur líðandi stundar. Ég vil endilega hvetja alla í göngur, aðalatriðið er að byrja smátt, en fólk er undrafljótt að komast í form og þá bíður allur heimurinn."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×